Öryggisráð SÞ þingar vegna N-Kóreu

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman til fundar klukkan sjö til að ræða geimskot Norður-Kóreumanna síðastliðna nótt. Fulltrúar Japana og Bandaríkjamanna í Öryggisráðinu fóru fram á fundinn.

Norður Kóreumenn skutu í nótt upp langdrægri eldflaug eins og þeir höfðu boðað. Tilgangurinn er að þeirra sögn að skjóta á loft gervihnetti. Suður Kóreumenn, Japanar og Bandaríkjamenn hafa hins vegar fullyrt að Norður Kóreumenn séu að prófa langdræga eldflaug sem dregið gæti til Alaska. Tilraunin stríði gegn ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006, hvort sem um geimskot með gervihnött sé að ræða eða ekki.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, fordæmdi í morgun eldflaugarskotið og sagði að um væri að ræða ögrun sem mæta yrði með viðeigandi hætti á alþjóðavettvangi. Frakkar tóku í sama streng. Þá hafa Japanar margoft lýst yfir miklum áhyggjum af fyrirætlunum Norður-Kóreumanna og segja þær ganga þvert á skuldbindingar sem stjórnvöld í Norður-Kóreu hafi undirgengist.

Kínverjar og Rússar, sem báðir hafa neitunarvald í Öryggisráðinu hvöttu til stillingar. Viðbrögðin mættu ekki vera þess eðlis að auka enn á spennuna á Kóreuskaga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert