Segja Fogh ætla að biðjast afsökunar

Anders Fogh Rasmussen, verðandi framkvæmdastjóri NATO.
Anders Fogh Rasmussen, verðandi framkvæmdastjóri NATO. Reuters

Stærstu dagblöð Tyrklands fullyrða að Anders Fogh Rasmussen hyggist biðja múslíma afsökunar á múhameðsteikningunum sem birtust upprunalega í dönsku dagblaði og vöktu mikla reiði meðal múslíma. Fogh Rasmussen hafi fallist á þetta til að fá Tyrki til að láta af andstöðunni við að hann yrði framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.

Tyrknesku blöðin segja að Fogh Rasmussen ætli að biðja múslíma afsökunar í ræðu sem hann flytur á fundi Sameinuðu þjóðanna í Istanbul á mánudag. Þau fullyrða að Fogh Rasmussen hafi orðið við öllum kröfum Tyrkja til að fá þá til að láta af andstöðunni við að hann yrði valinn framkvæmdastjóri NATO. Hann hafi m.a. samþykkt að kúrdíska gervihnattasjónvarpinu Roj TV, sem er með bækistöðvar í Danmörku, verði lokað. Tyrkir segja að Roj TV sé hluti af PKK, kúrdískum samtökum, sem Evrópusambandið og Bandaríkin líta á sem hryðjuverkasamtök.

„Tyrkir hafa samþykkt Rasmussen með fyrirvara. Hann ætlar að biðjast afsökunar á múhameðsteikningunum. Og Roj TV verður lokað,“ segir  stærsta dagblað Tyrklands í forsíðufrétt.

Tyrknesku blöðin segja að Tyrkir hafi einnig fengið loforð um þrjú mikilvæg embætti innan NATO, meðal annars embætti aðstoðarframkvæmdastjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert