Sjö ára fangelsi fyrir skipti á eiginkonum

Dómstóll í Kaíró hefur dæmt karlmann í sjö ára fangelsi fyrir að hafa stundað kynlíf utan hjónabands. Eiginkona mannsins hlaut þriggja ára fangelsisdóm. Dómari sagði við uppkvaðningu dómsins að þetta væri einn versti glæpur sem hægt væri að drýgja.

Hjónakornin, 48 ára opinber starfsmaður og 37 ára kennslukona, voru handtekin í nóvember 2008, sökuð um vændi. Þá höfðu þau sett auglýsingu á netið og óskað eftir nánum kynnum við hjón sem væru áhugasöm um skipti á eiginkonum. Þau notuðu dulnefni á netinu, Magdy og Samira.

Saksóknari segir sannað að hjónin hafi hitt þrenn hjón og haft makaskipti og að auki skipulagt kynlífssvall, þar sem makaskipti voru í fyrirrúmi.

Lögmaður hjónanna segir að þau hafi aðeins játað fyrir dómi að hafa gantast á netinu með þessa hluti, þau hafi hvorki hitt önnur hjón eða stundað með þeim kynlíf.

Kynlíf utan hjónabands er bannað samkvæmt lögum Egyptalands en stjórnarskrá landsins styðst við lögmál kóransins. Þá er heimilt samkvæmt egypskum lögum að ákæra fólk fyrir vændi ef það stundar kynlíf utan hjónabands, jafnvel þó peningar komi aldrei við sögu.

Verjandi hjónanna segir dóminn mjög þungan. Þeir sem verði afhuga trú sinni fá ekki einu sinni svo þunga dóma. Verjandinn segir að dómnum verði því áfrýjað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert