Angela Merkel, kanslari Þýskalands, fór í óvænta heimsókn til Afganistan í gær, þar sem hún heilsaði upp á þýska hermenn sem eru að störfum í landinu. Spenna í landinu hefur farið vaxandi undanfarna mánuði og hafa liðsmenn Talibana verið að færa sig upp á skaftið. Um 3.500 þýskir hermenn eru í landinu.
Merkel hélt rakleiðis til norðurhluta landsins þar sem megnið af þýsku hermönnunum eru við störf. Með henni í för var varnarmálaráðherra Þýskalands, Franz-Jozef Jung.
Um helgina urðu tveir flokkar þýskra hermanna fyrir árás skammt frá borginni Konduz, í norðurhluta landsins, en enginn slasaðist. Færst hefur í vöxt að alþjóðlegar hersveitir, sem eru að störfum í landinu, verðir fyrir árásum af hálfu Talibana. Til þess að mæta þessari þróun hafa leiðtogar þeirra ríkja sem eru með hermenn að störfum í landinu heitið því að efla starfið í Afganistan. Meðal annars hyggst Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, efla herinn í landinu á kostnað heraflans í Írak.