Yfir eitt hundrað eru látnir eftir jarðskjálftann sem reið yfir Ítalíu í nótt, samkvæmt upplýsingum sem ítalska sjónvarpsstöðin Sky TG-24 hefur eftir björgunarmönnum. Fyrr í dag var greint frá því að yfir 1.500 væru slasaðir og 50 þúsund hafi misst heimili sín í skjálftanum.
Meðal þeirra sem eru í viðbragðsstöðu vegna skjálftans er íslenska alþjóðasveitin en rétt fyrir klukkan 2 í nótt bárust boð frá jarðvísindastofnun Bandaríkjanna um að jarðskjálfti upp á 6.3 á Richter hefði riðið yfir miðhluta Ítalíu. Jarðskjálftinn var mjög grunnt undir borginni L'Aquila sem er um 90 km norðaustur af Róm.
Þegar leið á nóttina varð ljóst að þó svo að ástandið væri alvarlegt þá væri það þannig að björgunaraðilar í Ítalíu myndu geta séð um viðbrögðin án þess að óskað yrði eftir aðstoð frá alþjóðlegum rústabjörgunarsveitum.
Alþjóðabjörgunarsveit Slysavarnafélagsins Landsbjargar var sett í vaktstöðu sem er lægsta viðbragð sem skilgreint er. Lang flestar aðrar alþjóðabjörgunarsveitir voru síðan settar í sömu stöðu. Einungis Grikkir eru búnir að senda sína sveit af stað.
Stjórnendur Íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar munu fylgjast áfram með stöðunni og ef ástandið breytist, endurmeta hvort sveitin verði sett í hærra viðbragð.