Obama og Netanyahu í áróðursstríð

Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels. Reuters

Stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta er nú sögð vera að búa sig í baráttu við nýja ríkisstjórn Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, um stuðning bandarískra þingmanna við stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna. Þetta kemur fram á fréttavef BBC. 

Bandarískir embættismenn hafa á undanförnum vikum átt fundi með bandarískum þingmönnum til að freista þess að samræma stefnu bandarískra yfirvalda og undirbúa hugsanleg átök við fulltrúa Netanyahus.

Mun Obama þó vonast til þess að staðfesta Bandaríkjastjórnar í málinu komi í veg fyrir að Netanyahu reyni að skapa sundrungu á Bandaríkjaþingi um málið. Stjórn Obama styður stofnun sjálfstæðs ríkis Palestínumanna sem fyrri yfirvöld í Ísrael hafa samþykkt í grunvallaratriðum.

Netanyahu, sem nýlega tók við stjórnartaumunum í Ísrael, hefur hins vegar ekki viljað lýsa yfir stuðningi við stofnun sjálfstæðs ríkis þeirra. 

Munu bandarískir embættismenn þegar hafa komið þeim skilaboðum áleiðis til Netanyahu að ríkisstjórn Obama vænti þess að ný ríkisstjórn Ísraels virði fyrirheit fyrri yfirvalda í landinu um stuðning við sjálfstætt ríki Palestínumanna, stöðvun uppbyggingar landnemabyggða gyðinga á palestínsku landi og öryggismálaaðstoð við stjórn Mahmoud Abbas, leiðtoga Palestínumanna. 

Avigdor Lieberman, nýr utanríkisráðherra Ísraels, hefur hins vegar lýst því yfir að stjórnin telji sig ekki bundna af skuldbindingum fyrri stjórna. Bandarískir ráðamenn hafa ekki viljað tjá sig um yfirlýsingar hans og segjast ekki ætla að gera það fyrr en þeir hafi rætt málið við Netanyahu sjálfan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert