Skipstjóri bandarísks flutningaskips er enn í haldi sómalskra sjóræningja eftir að aðrir í áhöfn skipsins náðu því aftur á sitt vald í dag. Að minnsta kosti eitt bandarískt herskip er á leiðinni að flutningaskipinu.
Sjóræningarnir rændu flutningaskipinu um 500 kílómetra undan strönd Sómalíu en áhöfninni tókst að ná skipinu á sitt vald eftir langvinn átök. Sjóræningjarnir, sem eru fjórir, náðu hins vegar skipstjóranum og héldu honum í björgunarbáti sem þeir tóku af skipinu. Áhöfn skipsins, alls tuttugu menn, er óvopnuð.
Skipið er í eigu Maersk Line, bandarísks dótturfélags danska skipafélagsins Mærsk. John Reinhart, forstjóri Maersk Line, staðfesti að einn maður væri í haldi sjóræningja en aðrir í áhöfninni væru heilir á húfi og hefðu náð skipinu á sitt vald. Skipið var að flytja hjálpargögn sem ætluð eru flóttafólki í Afríku.
Þrjú bandarísk herskip eru í Aden-flóa og að minnsta kosti eitt þeirra er á leiðinni til flutningaskipsins, að sögn bandaríska varnarmálaráðuneytisins í kvöld.
Um 12 til 16 bandarísk og evrópsk herskip eru að staðaldri í Aden-flóa til að taka þátt í baráttunni gegn sómölskum sjóræningjum sem hafa fært sig upp á skaftið síðustu mánuði. Tilkynnt var um rúmlega 130 árásir sjóræningja í Aden-flóa á síðasta ári og nær 50 skipum var rænt. Eigendur skipanna greiddu alls um 80 milljónir dollara, jafnvirði 10 milljarða króna, í lausnargjald fyrir skipin og áhafnir þeirra á síðasta ári.
Sjóræningjarnir hafa rænt sex skipum á síðustu dögum.