Lögreglan á Ítalíu segir að 272 lík hafi fundist í húsarústunum í Abruzzo-héraði eftir jarðskjálftann sem reið yfir á mánudaginn var.
Silvio Berlusconi, forsætisráðherra Ítalíu, segir að á meðal þeirra sem fórust í skjálftanum séu sextán börn. Um 1.200 manns voru flutt á sjúkrahús og þar af slösuðust um hundrað alvarlega.
Berlusconi sagði í dag að áætlað væri að 28.000 manns hefðu misst heimili sín. Forsætisráðherrann hefur verið gagnrýndur fyrir að líkja aðstæðum flóttafólksins á hamfarasvæðinu við útileguferð. Berlusconi sagði í útvarpsviðtali að ekki væsti um fólkið. „Þau hafa allt sem þau þurfa, þau fá læknishjálp, heitan mat,“ sagði forsætisráðherrann. „Næturskjól þeirra er auðvitað bara til bráðabirgða. En þau ættu að líta á þetta sem helgi í útilegu.“
Leitinni í rústunum verður haldið áfram þar til á sunnudag, þótt litlar líkur séu nú taldar á að fleiri finnist þar á lífi.