Sjö ungir karlmenn sitja í gæsluvarðhaldi í Södertälje í Svíþjóð, grunaðir um skipulagðar hópnauðganir. Eru mennirnir grunaðir um að hafa lokkað ungar stúlkur á aldrinum 13 til 16 ára í samkvæmi í bænum, veitt þeim áfengi og nauðgað þeim síðan. Enginn mannanna er með sænskan ríkisborgararétt og eiga þeir yfir höfði sér fangelsisvist og brottvísun úr landi.
Að sögn Länstidningen voru fjórir karlmenn á aldrinum 20-23 ára handteknir í febrúar eftir að ein af stúlkunum kærði þá til lögreglu. Þeir hafa setið í gæsluvarðhaldi síðan. Í mars voru tveir karlmenn til viðbótar, 19 og 21 árs, handteknir og úrskurðaðir í varðhald og um síðustu helgi var sjöundi maðurinn handtekinn. Allir eru þeir félagar í óformlegum samtökum í bænum.
Länstidningen segir, að félagar í samtökunum og starfsmenn á veitingastöðum hafi komið á sambandi við unglingsstúlkur og boðið þeim í samkvæmi. Þeim samkvæmum lauk oftast með hópnauðgun. Samkvæmin voru oftast haldin í húsnæði, sem bíður niðurrifs og einu húsgögnin þar voru rúmdýnur.
Fréttavefur Dagens Nyheder hefur eftir lögmanni eins mannanna, að hann líti öðrum augum á það sem gerðist í samkvæmunum og að ekki hafi verið um að ræða nauðganir.