Spenna vegna hryðjuverkarannsóknar

Frá vettvangi húsleitar við Galsworthy Avenue í Manchester í dag.
Frá vettvangi húsleitar við Galsworthy Avenue í Manchester í dag. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, átti í dag símafundi með Asif Ali Zardari, forseta Pakistans eftir að ellefu Pakistanar voru handteknir í Bretlandi grunaðir um að skipuleggja stórfelld hryðjuverk. Mikil spenna er í samskiptum ríkjanna vegna málsins.

„Þeir eru sammála um að Bretland og Pakistan standi frammi fyrir sameiginlegri alvarlegri hryðjuverkaógn og ógn af herskáum öfgamönnum og voru sammæltust um að vinna saman að lausn þessa erfiða verkefnis,” sagði talsmaður Brown í dag.

Sendiherra Pakistana í Bretlandi lýsti því hins vegar yfir fyrr í dag að yfirvöld í Pakistan hafi gert allt sem í þeirra valdi standi í baráttunni gegn hryðjuverkum en að bresk yfirvöld verði að leggja meira að mörkum, bæði með því að auka landamæraeftirlit sitt og aðstoða yfirvöld í Pakistan í baráttu þeirra gegn hryðjuverkastarfsemi.

„Við erum sakaðir um að gera ekki nóg. Við erum að gera nóg þrátt fyrir takmarkaðan kost,” sagði sendiherrann Wajid Shamsul Hasan í símasamtali við Sky sjónvarpsstöðina.

„Við höfum verið að hvetja vini okkar í vestri til að veita okkur aðstoð, þjálfun, vopn, þannig að við getum náð tökum á hlutunum og haldið stríðinu áfram.”Þá gagnrýndi hann bresk yfirvöld fyrir að leita ekki umsagna yfirvalda í Pakistan áður en þeir veiti einstaklingum dvalarleyfi sem námsmenn í Bretlandi. Frá árinu 2004 til 2008 fengi 42.292 Pakistanar námsmannadvalarleyfi I Bretlandi.

Lögregla í Bretlandi hefur gert húsleitir á a.m.k. tíu stöðum í tengslum við rannsókn hins meinta hryðjuverkamáls í dag. Pakistanarnir ellefu voru ásamt einum Breta handteknir á miðvikudag, sakaðir um að leggja á ráðin um sprengjutilræði í verslunarmiðstöðvum um páskahelgina.

Tíu Pakistananna hafa dvalið sem námsmenn í Bretlandi.

Reuters
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert