Margir Ítalir óttast að mafían og óheiðarlegir embættismenn klófesti mikið af því fé sem veitt er til aðstoðar fórnarlömbum jarðskjálftannna í Abruzzo-héraði, austan við Róm, að sögn Reuters-fréttastofunnar. Á Sikiley býr fólk enn í neyðarskýlum sem reist voru eftir jarðskjálfta árið 1908 en þá fórust um 5000 manns.
Jarðskjálftar eru tíðir í landinu og hafa margir sem misstu heimili sín búið í nokkra áratugi í bráðabirgðahúsum vegna þess að opinber aðstoð hefur hafnað í vösum spilltra embættismanna og mafíuhópa. Er óttast að nú, þegar verið er að skipuleggja endurreisn í Abruzzo, muni allt fara á sömu leið.
Vitað er að 287 létu lífið og 28.000 manns misstu heimili sín í jarðskjálftunum nýverið. Héraðið er í jaðri helsta áhrifasvæðis mafíusamtakanna Camorra á sunnanverðum Ítalíuskaganum. Camorra hefur lengi þrifist vel á því að múta embættismönnum og látið mjög til sín taka í byggingaiðnaði.