Berst fyrir skilnaði 8 ára dóttur sinnar

Búist er við að móðir 8 ára stúlku í Saudi-Arabíu áfrýi nýföllnum dómi sem kveður á um að dóttirin megi ekki skilja við 47 ára eiginmann sinn.

Sami dómari ákvað í desember að ógilda ekki hjónabandið, þvert á óskir móðurinnar. Málið hefur hlotið mikla athygli jafn innanlands sem utan. Dómarinn sagði að móðirinn, sem er skilin við föður stúlkunnar, væri ekki forráðamaður hennar og gæti því ekki lagt fram beiðni sem þessa. Í mars neitaði dómstóll í höfuðborginni Riyadh að staðfesta úrskurðinn og sendi málið aftur til dómarans.

Eiginmaður stúlkunnar hefur heitið að sænga ekki hjá stúlkunni fyrr en hún hefur náð kynþroska. Faðir stúlkunnar samdi við manninn um hjónabandið til að fá skuldir við hann felldar niður. 

Að sögn ættingja móðurinnar ætlar hún að halda áfram að berjast fyrir því að dóttur sinni verði veittur skilnaður frá manninum. Nú hefur dómarinn hinsvegar sagst ætla að standa við fyrri dóm sinn og geti stúlkan sjálf sótt um skilnað, óski hún þess, þegar hún nær kynþroskaaldri.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert