Hópur ættbálkaleiðtoga í Sómalíu reynir nú að fá sjóræningja til að sleppa bandarískum skipstjóra, sem þeir hafa haldið í gíslingu um borð í björgunarbáti frá því á miðvikudag.
Fréttir herma að öldungar frá þorpinu Garacad, sem eru skyldir sjóræningjunum, hafi í gær siglt af stað áleiðis til svæðisins þar sem sjóræningjarnir eru á siglingu um 30-45 km undan strönd Sómalíu.
Viðræður fulltrúa Bandaríkjahers við sjóræningjana fóru út um þúfur í gær. Sjóræningjarnir vilja fá að fara í land með skipstjórann en Bandaríkjamenn segja að sjóræningjarnir verði að gefast upp. Sjóræningjarnir hafa hins vegar sagt, að verði gert tilraun til að frelsa skipstjórann, Richard Phillips, með valdi, muni það hafa alvarlegar afleiðingar.
Sjóræningjarnir reyndu að ræna skipinu Maersk Alabama á miðvikudag en ránstilraunin mistókst. Skipið kom til hafnar í Mombasa í Kenýa í gærkvöldi og áhöfnin sagði þá, að skipstjórinn hefði sýnt mikið hugrekki og boðið sig fram sem gísl til að bjarga öðrum í áhöfninni.
Sjóræningjarnir skutu í gær á bandarískan byssubát, sem nálgaðist björgunarbátinn. Engan sakaði og herskipið snéri við án þess að svara skothríðinni.