Ferðaviðvörun ekki gefin út

Mótmælin í Taílandi hafa haldið áfram í dag. Á ellefta tímanum í morgun var bensínsprengjum kastað að einni byggingu menntamálaráðuneytisins í Bangkok og logar eldur í húsinu. Fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytis bendir Íslendingum sem hyggjast ferðast til Bangkok á að fylgjast vel með fréttum, og hvort önnur Norðurlönd gefi út ferðaviðvaranir.

Bensínsprengjum var varpað á ráðuneytisbygginguna eftir að gluggar höfðu verið brotnir með grjótkasti. Þá kveiktu mótmælendur einnig í sjö strætisvögnum framan við byggingu Sameinuðu þjóðanna, sem er skammt frá ráðuneytinu. 


Stjórnvöld í Taílandi lýstu yfir neyðarástandi í gær í Bangkok og nágrenni borgarinnar þar sem þúsundir mótmælenda hafa krafist afsagnar forsætisráðherranns, Abhisit Vejjajiva. Eru það einkum stuðningsmenn Thaksin Shinawatra, fyrrverandi forsætisráðherra landsins, sem hafa staðið fyrir mótmælunum.

Í nótt særðust hátt í hundrað mótmælendur þegar hermenn reyndu að stöðva mótmælin. Greint hefur verið frá því að hermenn hafi beitt skotvopnum í aðgerðum sínum. Yfirmenn í hernum segjast hins vegar að  aðeins hafi verið skotið yfir höfuð manna.

Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytis, segir ferðaviðvörum ekki í gildi en vel sé fylgst með gangi mála. Engar upplýsingar eru um að Íslendingar hafi slasast í mótmælunum.

Mótmælendur hafa kveikt í dekkjum og kasta bensínsprengjum í strætisvagna …
Mótmælendur hafa kveikt í dekkjum og kasta bensínsprengjum í strætisvagna og byggingar. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka