Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna fordæmi í dag eldflaugaskot Norður-Kóreu þann 5. apríl síðastliðinn og samþykkti ráðið að herða núgildandi refsiaðgerðir gagnvart ríkinu. Voru fulltrúar allra fimmtán aðildarríkja öryggisráðsins sammála um ályktunina en hún byggir á samþykkt fulltrúa sex áhrifamestu ríkja heims frá því á laugardag.
Norður-kóreska eldflaugin flaug í nokkrar mínútur í gegnum lofthelgi Japans. Þarlend stjórnvöld höfðu heimilað hernum að skjóta eldflaugina niður ef hætta væri á að hún lenti á japönsku landsvæði. Norður-kóreska stjórnin hafði sagt að hún myndi líta á það sem stríðsyfirlýsingu ef flaugin yrði skotin niður.
Kommúnistastjórnin í Norður-Kóreu fullyrti að markmiðið hefði verið að koma gervihnetti á braut um jörðu og það hefði tekist. Gervihnötturinn væri nú í geimnum og sendi út „ódauðlega byltingarsöngva“ um Kim Jong-il, leiðtoga kommúnistastjórnarinnar, og föður hans, Kim Il-sung, sem lést árið 1994.
Yfirvöld í Bandaríkjunum og Suður-Kóreu sögðu hins vegar að gervihnötturinn hefði ekki komist í geiminn, heldur lent í Indlandshafi eins og eldflaugin.