Egypskum manni hefur nú tekist það ómögulega, að snúast frá íslam til kristni. Er hann fyrstur Egypta til að fá formlega staðfest að hann hafi kastað íslam. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Lögfræðingar mannsins Maker al-Gohari, segja hann hafa fengið opinbera staðfestingu á því að hann hafi skipt um trú.
Ekki er ólöglegt að skipta um trú í Egyptalandi og er nokkuð algengt að kristnir einstaklingar snúist til íslam. Fram til þessa hafa yfirvöld í landinu hins vegar ekki staðfest skipti frá íslam til kristni.
Talið er að um 10% af 80 milljónum íbúa Egyptalands séu kristnir en engar opinberar tölur fást um fjölda kristinna manna í landinu.