Sómalískir sjóræningjar virðast óhræddir þrátt fyrir aðgerðir bandarískra og franskra hermanna um liðna helgi. Í nótt rændu þeir grísku fraktskipi á Adenflóa, M.V. Irene. Þetta er þriðja skipið sem rænt er á einni viku. Litlar upplýsingar hafa borist um skipið, s.s. um þjóðerni áhafnarinnar en 22 menn voru um borð. Þeir eru sagðir ómeiddir.
Bandarísk áhöfn flutningaskips sem sómalískir sjóræningjar rændu undan ströndum Sómalíu í síðustu viku hefur hvatt Barack Obama Bandaríkjaforseta til að stöðva sjóræningjana.
Hvatningin kom eftir að skipstjóra flutningaskipsins var bjargað af bandarískum leyniskyttum, sem skutu á sjóræningjana sem voru með hann í haldi um borð í björgunarbát. Þrír sjóræningjar voru skotnir til bana í aðgerðum sjóhersins, sem Obama fyrirskipaði.