Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur kynnt aðgerðaáætlun í fjórum liðum sem ætlað er að sporna gegn sjóránum í Aden flóa, sem hafa gert mörgum skipuverjum og skipafyrirtækjum lífið leitt að undanförnu.
Clinton segir að aukin alþjóðleg samvinna sé nauðsynlegt í baráttunni, auk þess sem eigur sjóræningjanna verði frystar. Þá segir hún að það sé nauðsynlegt að skipafyrirtæki efli varnir sínar.
Hún segir jafnframt að það sé nauðsynlegt að bæta ástandið í Sómalíu, þaðan sem meirihluti sjóræningjanna kemur.
Sjóránum hefur fjölgað mikið undanfarna daga. Bandarísk skip og áhafnir eru á meðal þeirra sem hafa orðið fyrir barðinu á sjóræningjum.