Fullvaxinn ísbjörn og tveir húnar réðust inn í bæinn Tasiilaq á Grænlandi á mánudaginn. Birnirnir höfðu þá hringsólað í kringum bæinn í þrjá daga. Þetta kemur fram á grænlenska fréttavefnum Sermitsiaq.
„Okkur barst tilkynning snemma á mánudaginn. Við reyndum að hræða birnina á brott en það tókst ekki. Við urðum því að skjóta birnina" Sagði Steve Berthelsen, lögregluvarðstjóri í Tasiilaq.
Áður höfðu ísbirnirnir gert nokkrar tilraunir til að komast inn í Tasiilaq. Lögreglan náði þá að hræða birnina burt með hjálp manna á snjósleðum. Ísbirnirnir sóttu þó alltaf strax aftur í bæinn.
Sjúkrahús, elliheimili og sambýli í bænum fengu kjötið af björnunum en ekki er vitað hvað gert verður við feldina af dýrunum.