Kenískur vinnumaður á sveitabæ í strandhéraði Kenía komst í hann krappann um helgina. Maðurinn steig óvart á fjögurra metra kyrkislöngu sem tók þegar til við að vefja sig utan um hann. Manninum var bjargað eftir þriggja tíma baráttu við slönguna og hafði hún þá dregið hann upp í tré.
Manninum tókst að teygja sig í farsíma sinn þegar slangan losaði hald sitt á manninum, eftir að hún hafði dregið hann upp í tré. Honum tókst að hringja eftir hjálp. Hann reyndi svo að vefja skyrtu sína utan um höfuð slöngunnar til verjast því að hún gleypti hann.
Björgunarmenn notuðu reipi til að draga slönguna niður úr trénu og af vinnumanninum. Þá hafði slangan nærri hringað sig um manninn allan. Hann slapp því sem næst ómeiddur, en nokkuð aumur.
Það sem björgunarmönnum þótti mest um var hvernig slöngunni tókst að draga manninn með sér upp í tré.