Noregur stækkar

Norðmenn hafa stækkað lögsögu landsins um 200 sjómílur og hafa Sameinuðu þjóðirnar lýst yfir stuðningi við ákvörðun norskra stjórnvalda. Norðmenn hafa með þessu náð yfirráðum yfir hafsvæði sem er mögulega ríkt af auðlindum á hafsbotni, þ.e. olíu og gasi.

„Það eina sem á eftir að gera er að fella ákvörðunina að norskum lögum og þá mun stækkun landgrunnsins taka gildi,“ segir Rolf Einar Fife, lögmaður utanríkisráðuneytisins.

Samkvæmt Hafréttarsáttamála Sameinuðu þjóðanna (UNCLOS) er 12 sjómílna landhelgi og 200 sjómílna efnahagslögsögu (þ.m.t. fiskveiðilögsögu) strandríkja viðurkennd. Ríkin ná þar með yfirráðum yfir þeim auðlindum sem þar er að finna. 

Strandríki eiga kröfu út að 350 sjómílum geti þau sannað með vísindalegum hætti að landgrunnið sé náttúruleg framlenging landsins.

Með ákvörðuninni hefur landgrunnið við Noreg stækkað um 235.000 ferkílómetra. Það jafngildir um sjö knattspyrnuvöllum á hvern íbúa landsins, segir Jónas Gahr Störe, utanríkisráðherra landsins. Tæpar 5 milljónir manna búa í Noregi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka