Stærsti banki Sviss, UBS, hefur tilkynnt um að störfum verði fækkað hjá bankanum um 8.700 í ár og á því næsta. Er þetta gert til þess að draga úr rekstrarkostnaði. Tap UBS nam um tveimur milljörðum svissneskra franka á fyrstu þremur mánuðum ársins.
UBS fór illa út úr undirmálslánakrísunni á síðasta ári og eins glímir bankinn við samdrátt í tekjum líkt og flestir bankar heims.
Í tilkynningu frá UBS kemur fram að stefnt sé að því að starfsmenn bankans verði 67.500 talsins í árslok 2010 en nú starfa 76.200 manns hjá bankanum. Vonast bankinn til þess að það takist að draga úr rekstrarkostnaði um 4 milljarða svissneskra franka og að uppsagnirnar séu því miður óumflýjanlegar. 2.500 munu missa vinnuna hjá UBS í Sviss og þúsundir í Bandaríkjunum. Einhverjir munu einnig missa vinnuna hjá bankanum í Bretlandi en alls starfa 7 þúsund manns hjá UBS þar í landi.