Ofbeldi gagnvart börnum hefur aukist töluvert í Bandaríkjunum í kjölfar niðursveiflunnar í efnahagslífinu. Margar bandarískar fjölskyldur eiga um sárt að binda af völdum kreppunnar og t.d. þá hafa mörg börn orðið fyrir barðinu á foreldrum sem hafa misst vinnuna og/eða hafa miklar fjárhagsáhyggjur. Á sama tíma búa barnaverndaryfirvöld við mikinn fjárskort.
Fjögurra mánaða gamalt barn var t.d. hrist mjög harkalega nýverið með þeim afleiðingum að barnið varð að fara í skurðaðgerð. Þá rifbeinsbrotnaði þriggja vikna gamalt barn vegna heimilisofbeldis. Auk þess veiktist 9 ára gamall sykursjúkur drengur eftir að hann hætti að fá lyfin sín.
Fram kemur á fréttavef Reuters að þetta séu dæmi um atvik sem sjúkrahús í Boston hafa þurft að sinna að undanförnu. „Undanfarna þrjá mánuði höfum við tekið á móti tvöfaldast fleiri sjúklingum, sem eru með alvarlega áverka, en við gerðum á sama tímabili í fyrra,“ segir Allison Scobie, yfirmaður barnaverndarmála hjá barnaspítalanum í Boston.
Spítalinn meðhöndlar um 1.500 tilvik sem þessi að meðaltali á hverju ári. Í fyrra voru tilfellin hins vegar 1.800.
„Okkar niðurstaða er sú að það eru bein tengsl við stöðu efnahagsmála,“ segir hún. Fleiri óski nú eftir ráðgjöf í tengslum við meint ofbeldi gagnvart börnum. Mörg sjúkrahús segi aukninguna nema á bilinu 20-30%.