Brown biðst afsökunar

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands.
Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. Reuters

Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, baðst í dag afsökunar á tölvupóstum, sem aðstoðarmaður hans sendi, þar sem þingmenn Íhaldsflokksins eru rægðir. Aðstoðarmaðurinn hefur sagt af sér.

Þetta er í fyrsta sinn sem Brown biðst afsökunar vegna málsins. Hann segist „bera fulla ábyrgð á því sem gerðist“ eftir að Damian McBride, ráðgjafi hans, lét af störfum í síðustu viku.

McBride vék til hliðar eftir að hluti tölvupósts sem hann sendi öðrum ráðgjöfum úr röðum Verkamannaflokksins var birtur á bloggsíðu. Í póstinum er rætt um það hvernig hægt er að rægja leiðtoga úr röðum breska Íhaldsflokksins og fjölskyldur þeirra.

Málið vakti mikla athygli og deilur um þá spuna- eða smjörklípupólitík sem er iðkuð í Bretlandi.

Íhaldsmenn eru með forskot á Verkamannaflokkinn í flestum skoðanakönnunum sem hafa verið gerðar að undanförnu. Búist er við því að þingkosningar verði boðaðar á næsta ári.

„Ég biðst afsökunar á því sem gerðist,“ sagði Brown og svaraði þar með kalli Íhaldsflokksins um að biðjast afsökunar tölvupóstinum. 

„Ég ber fulla ábyrgð á því sem gerðist. Þess vegna var sá sem ber ábyrgð í málinu látin fara þegar í stað.“

Brown heldur því jafnframt fram að hann hafi ekki vitað um tölvupóstinn fyrr en eftir að honum var lekið á netið. Hann segist vera miður sín vegna málsins. Hann hafi orðið mjög reiður þegar hann frétti af því sem hafði gerst.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert