Mikill eldur braust út í íbúðarhúsnæði á Amagerbrogade á Amager í Kaupmannahöfn nú undir kvöld. Í húsinu eru einnig verslanir og veitingastaður. Íbúar hússins bíða í rútu rétt hjá. Ekki er vitað um slys á fólki. Eldurinn er býsna mikill og hefur læst sig í þak og
turn hússins, að sögn sjónarvotts.
Slökkvilið og lögregla mættu með mikinn liðsstyrk þegar boð bárust um að kviknað hafi í risi hússins. Mörgum götum í nágrenninu var lokað. Um 20-25 íbúar þurftu að yfirgefa húsið, að sögn fréttavefjar Berlingske Tidende. Húsið heitir Sønderborg og er á horni Amagerbrogade og Prags Boulevard.
Mikill reykur og eldtungur stigu upp úr þakinu. Slökkviliðið var um klukkustund að ráða niðurlögum eldsins. Að sögn sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 urðu engin meiðsl á fólki vegna eldsvoðans. Húsið virðist þó vera mikið skemmt. M.a. mun turn sem prýddi húsið hafa brunnið að mestu.