Mikill eldur logar í vélarrúmi farþegaskipsins Queen Of Scandinavia, sem liggur við bryggju í Oscarshamn í Svíþjóð. Um 600 manns, sem voru um borð í skipinu, hafa verið fluttir í land. Skipið var ekki í siglingum heldur notað til að hýsa farandverkamenn sem starfa við kjarnorkuverið í bænum.
Að sögn sænskra fjölmiðla búa að jafnaði um 1000 manns um borð í ferjunni en margir þeirra voru við störf í landi þegar eldurinn kviknaði. Verið er að endurnýja hluta af kjarnorkuverinu.