Barack Obama Bandaríkjaforseti aflétti í dag leynd sem hvílt hefur yfir minnisblöðum þar sem lýst er harkalegum aðferðum leyniþjónustunnar, CIA, við yfirheyrslur yfir meintum hryðjuverkamönnum. Hann sagði hins vegar að mennirnir sem yfirheyrðu hefðu aðeins hlýtt skipunum og yrðu ekki saksóttir.
Upplýsingum um þessar aðferðir var lekið á sínum tíma í fjölmiðla en nú er um að ræða opinbera staðfestingu á því hvað gert var. Aðferðirnar eru sumar svo harkalegar að Bandaríkjastjórn hefur verið sökuð um að leyfa pyntingar í tíð forvera Obama, George W. Bush. Einkum hafa margir gagnrýnt svonefnda vatnspyntingu en þá er fórnarlambið látið halda að ætlunin sé að drekkja því.
,,Nú er tími til að velta þessum málum fyrir sér, ekki tími til að leita hefnda,," sagði forsetinn. ,,Við höfum farið í gegnum dimman og sársaukafullan kafla í sögu okkar. En á tímum þegar tekist er á við mjög erfið verkefni og misklíð ríkir munum við ekki hagnast neitt á því að verja orku og tíma í að leita að sökudólgum í fortíðinni."
Umrædd minnisblöð lýsa því hvað leyft sé og eru þau rituð af lögfæðilegum ráðgjöfum stjórnar Bush eftir árásirnar 11. september 2001. Forsetinn samþykkti tillögur ráðgjafanna.