Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) hefur samþykkt 6.041 milljarða króna lánalínu til Mexíkó í nýrri áætlun sem ætlað er að auðvelda ríkjum sem hafa farið illa út úr niðursveiflunni að nálgast fjármagn.
„Mexíkósk yfirvöld hafa lýst því yfir að samkomulagið sé varúðarráðstöfun og að þau hyggist ekki nýta sér lánalínuna,“ sagði í tilkynningu frá sjóðnum.
Ráðstöfunin er sem fyrr segir liður í að aðstoða ríki við að nálgast fjármagn þegar í nauðirnar rekur en sem kunnugt er hafa starfsmenn sjóðsins í nógu að snúast við að veita bágstöddum ríkjum lán.
Næsta ríki sem líklegt þykir að fái slíka baktryggingu er Pólland og er talið að upphæðin í því tilviki verði um 2.600 milljarðar króna.