„Ég er góður bílstjóri"

Dani, sem hefur verið handtekinn yfir 500 sinnum fyrir umferðarlagabrot, þar af ítrekaðan ölvunarakstur, segir í viðtali við danska blaðið B.T. í dag, að hann muni halda áfram að keyra þrátt fyrir að hafa verið ítrekað sviptur réttindum ævilangt.  „Ég hef ekið frá því ég var 17 ára. Ég er góður bílstjóri," segir hann.

Jens Larsen hefur 28 sinnum verið dæmdur fyrir að aka undir áhrifum áfengis og 118 sinnum fyrir að aka réttindalaus. Hann hefur samtals fengið yfir 500 dóma en lætur sér ekki segjast.  Í nótt var hann stöðvaður utan við  Nørager Kro þar sem hann sat undir stýri ölvaður. Lögreglan ætlar í dag að krefjast gæsluvarðhalds yfir honum. 

„Ég mun aka aftur. Ég get ekki annað. Lögreglan hefur gert fimm bíla sem ég átti upptæka og heldur að það dugi. Hún ætti frekar að sjá til þess að ég fái ökuskírteini aftur svo ég geti lifað venjulegu lífið," segir Larsen við B.T. 

Blaðið ræddi við Larsen á heimili hans í Veddum á Jótlandi þar sem hann var að jafna sig eftir slark næturinnar en þá var hann einnig stöðvaður grunaður um ölvunarakstur og lögreglan lagði hald á bíl hans. 

Larsen segist aldrei hafa valdið slysi í umferðinni. Hann segist eiga sjö bíla og 2 mótorhjól og muni því halda áfram að aka.

Umfjöllun B.T.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert