Kim segist stundum þreyttur

Kim Jong-Il, leiðtogi Norður-Kóreu, segist stundum þreytast í önnum dagsins enda sé hann ekki gerður úr stáli. Þessar fréttir fluttu norður-kóreskir ríkisfjölmiðlar í morgun.

„Maðurinn er ekki gerður úr stáli og verður að gæta vel að líkama sínum. En ég hef engan tíma til þess," hafði blaðið Rodong Sinmun eftir leiðtoganum. 

Talið er að Kim, sem er 67 ára, hafi fengið heilablóðfall í ágúst á síðasta ári. Norður-kóreskir ráðamenn hafa raunar harðneitað þessu en Kim sást ekki í marga mánuði og þegar hann kom loks fram opinberlega í mars var hann mun ellilegri og magrari en áður.

En blaðið segir að Kim hafi tekið þátt í mun fleiri opinberum athöfnum í ár en venjulega. „Af hverju skyldi ég ekki vera þreyttur og þurfa svefn?" hefur blaðið eftir Kim. „En þótt ég sé þreyttur þá harka ég af mér. Hvað knýr mig áfram þrátt fyrir þreytu og álag? Ég finn fyrir djúpri ábyrgð á örlögum föðurlandsins, þjóðarinnar." 

Suður-kóreskir embættismenn, sem fylgjast grannt með þróun mála í nágrannaríkinu, telja að Kim sé með alla valdatauma í hendi sér þrátt fyrir veikindin. 

Norður-kóreskir ríkisfjölmiðla lýsa Kim sem velgjörðamanni þjóðar sinnar. Rodong Sinmun sagði, að hann hefði verið meir en jafnframt ákveðinn þegar blaðið fylgdist með honum nýlega. Kim hefði fengið kökk í hálsinn þegar hann þurfti að nota peninga til að greiða fyrir hádegisverð frekar en að bæta lífskjör fólks.

„En þjóð okkar mun sýna á því skilning," hefur blaðið eftir honum.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert