Lögregla í Þýskalandi hefur komið upp um barnaklámhring sem talið er að teygi anga sína til nítíu landa. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Baden-Wuerttemberg tengjast 9.000 einstaklingar hringnum sem m.a. starfaði í Evrópu, Kanada og á Nýja-Sjálandi. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.
Lögregla segir að meðlimir hringsins hafi m.a. skipst á myndum sem sýni mjög alvarleg kynferðisbrot gagnvart börnum. 500 tölvur og 43.000 minniskort hafa verið gerð upptæk í aðgerðum gegn hringnum í Þýskalandi.
Nokkrir hafa verið handteknir en þeim var flestum sleppt að loknum yfirheyrslum. Þó er maður í Neðra-Saxlandi enn í haldi lögreglu grunaður um kynferðislegt ofbeldi gagnvart tveimur börnum sínum. Við rannsókn málsins notaði lögregla tölvubúnað sem fylgist með netnotkun valinna tölva.
Á morgun munu yfirvöld í Þýskalandi skrifa undir samning við netþjónustufyrirtæki um notkun búnaðar sem torveldar aðgang að síðum með barnaklámefni.
Ekki er vitað til þess að hringurinn teygi arma sína hingað til lands.