Kúbustefnan hefur mistekist

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Reuters

Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, viðurkenndi í dag að stefna stjórnvalda í Washington gagnvart Kúbu hefði ekki borið árangur en 47 ár eru liðin frá því Bandaríkjamenn settu viðskiptabann á eyjuna.

„Við höldum áfram að leita að uppbyggilegum leiðum fram á við því við lítum svo á að núverandi stefna hafi mistekist," sagði Clinton á fundi með blaðamönnum í Dóminíska lýðveldinu, skömmu áður en fundur 34 leiðtoga Ameríkuríkja á Trinidad og Tobago hófst fyrr í dag.

Kvaðst utanríkisráðherrann jafnframt reiðbúinn til að skoða alvarlega tilboð Raul Castro Kúbuforseta um viðræður en hann kveðst tilbúinn til ræða mannréttindi, stöðu einstaklinga sem haldið er föngnum vegna stjórnmálaskoðanna þeirra og frelsi fjölmiðla, svo eitthvað sé nefnt.

Á sama tíma kvaðst Jose Miguel Insulza, framkvæmdastjóri Samtaka Ameríkuríkja, OAS, myndu fara þess á leit við meðlimi þeirra að Kúbu yrði leyft ganga í þau á ný, 47 árum eftir að henni var vikið úr þeim.

Yfirlýsing Clinton kemur í kjölfar þess að Bandaríkjastjórn samþykkti fyrir helgi lög sem greiða fyrir heimsóknum Kúbverja sem eru búsettir í Bandaríkjunum til ættingja sinna á Kúbu og peningasendingum þangað.

Áður hafði Barack Obama Bandaríkjaforseti sagt það undir Kúbustjórn komið hver næstu skref yrðu, ásamt því sem hann ítrekaði að stefnunni gagnvart henni yrði ekki breytt á „einni nóttu".

Aukin áhrif Kínverja

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því viðskiptabannið var sett á árið 1962 í kjölfar byltingar Fidels Castro, bróðurs núverandi forseta.

Kalda stríðinu er lokið og heimsmyndin mikið breytt frá því sem var þegar Bandaríkjastjórn og Sovétríkin tókust á um kjarnavopn á eyjunni.

Nefna má að áhrif Kínverja á Kúbu hafa farið vaxandi sem og víðar í Mið- og Suður-Ameríku og kínverskar neysluvörur, s.s. örbylgjuofnar, vegið á móti viðskiptabanninu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert