Lettar á barmi gjaldþrots

Merki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
Merki Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Reuters

Stjórnvöld í Lettlandi eiga í mesta basli með að uppfylla skilyrði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem sett voru í tengslum við 1.260 milljarða króna lán sjóðsins og annarra lánveitenda, þar með talið ESB, til stjórnarinnar um síðustu áramót.

Í skýrslu sjóðsins um stöðu lettneska þjóðarbúsins, sem samin var í febrúar en birt opinberlega í gær, segir að það hafi reynst mun meiri áskorun að mæta þessum kröfum en ráðgert var þegar lánið gekk í gegn.

Stjórnin hefur þegar fengið 269 milljarða króna af láninu en fékk hins vegar ekki 33,5 milljarða króna lán afgreitt frá sjóðnum nýverið með þeim rökum að hún hefði ekki fylgt áætlun hans nægjanlega vel eftir.

Þá gæti pólitískur óstöðugleiki sett frekara strik í reikninginn, að mati skýrsluhöfunda sjóðsins.

Meginkröfur sjóðsins er að skorið verði verulega niður í ríkisútgjöldum og greindi Einars Repse, fjármálaráðherra landsins, frá því í fyrradag að flest benti til að stjórninni myndi ekki takast að uppfylla skilyrði fyrir 285 milljarða króna væntanlegu láni frá sjóðnum, nema henni tækist að draga úr útgjöldum um 40 prósent til viðbótar frá fyrri niðurskurði.

Lánið forsenda viðreisnarinnar

Valdis Dombrovskis, forsætisráðherra Lettlands, hefur dregið upp dökka mynd af stöðu þjóðarbúsins og varað við því að Letta kunni að bíða þjóðargjaldþrot fáist næsta lán hjá AGS ekki afgreitt í júní nk.

Umskiptin eru mikil fyrir Letta sem litu framtíðina björtum augum árin 2006 og 2007 þegar hagvöxtur var 11,9 prósent annars vegar og 10,2 prósent hins vegar. Nú er hins vegar reiknað með að þjóðarframleiðslan dragist að óbreyttu saman um 13 prósent í ár.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka