Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi Sovétleiðtogi, og George P. Shultz, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, rifjuðu upp leiðtogafundinn í Höfða árið 1986 á ráðstefnu í Rómarborg fyrir helgi. Við það tilefni sagði Gorbatsjov viðleitni sína til að stuðla að afvopnun ekki hafa orðið til einskis.
Augu heimsbyggðarinnar voru á Íslandi um haustið 1986 þegar Gorbatsjov og Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseti, ræddu leiðir til að fækka kjarnavopnum í heiminum.
Á sínum tíma var fundurinn gerður upp á þann veg að þar hefði ekki tekist að þoka málum í höfn.
Tvímenningarnir vilja hins vegar meina að fundurinn hafi ekki mistekist, heldur hafi andi hans átt þátt í START afvopnunarsamkomulaginu um fækkun kjarnavopna árið 1991 og endalokum kalda stríðsins um líkt leyti.
„Tilraunir okkar voru ekki til einskis,“ sagði Gorbatsjov um fundinn.
Gorbatsjov og Shultz, sem báðir eru aldraðir menn, ræddu við AP-fréttastofuna um „mistökin“ sem gerð voru í Höfða í að miða afvopnunarmálum áfram.
Gorbatsjov kom þá fulltrúum Bandaríkjastjórnar í opna skjöldu þegar hann lagði til að stjórnir beggja ríkjanna beittu sér fyrir útrýmingu kjarnorkuvopnabúra þeirra en þá svaraði Shultz nær því að bragði „Gerum það“.
„Við vorum mjög nærri því. Við vorum í grundvallaratriðum tilbúnir til að undirrita samkomulagið,“ sagði Gorbatsjov, sem vék næst að stjörnustríðsáætlun Reagans.
„Við álitum hana [...] tilraun til að vígvæða geiminn. Við sáum mikla hættu á ferðum.“
Það var af þeim sökum sem að sovésku fulltrúarnir fóru þess á leit að áætlunin yrði takmörkuð við rannsóknarstofuna, krafa sem var hafnað.
Fundurinn endaði í flækju
Shultz er einnig inntur álits á afrakstri fundarins sem hann segir hafa endað í flækju.
„Ef eitthvað átti að gerast, þá varð allt að gerast,“ sagði Shultz um fundinn.
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Dmítrí Medvedev, forseti Rússlands, vinna nú að framhaldi afvopnunarsamninga um frekari fækkun kjarnavopna.
Markmiðið er háleitt og ráðleggja Gorbatsjov og Shultz leiðtogunum að sýna staðfestu í samningagerðinni, margt óvænt geti komið upp á sem kalli á lagni við samningaborðið.