Obama og Chávez heilsast

Það vakti athygli, að þeir Barack Obama, Bandaríkjaforseti, og Hugo Chávez, forseti Venesúela, heilsuðust með handabandi á fundi Ameríkuríkja, sem nú stendur yfir á Trinidad og Tobago. Chávez hefur verið afar gagnrýninn á Bandaríkin á undanförnum árum.

„Þetta tók aðeins  nokkrar sekúndur. Þeir sáu hvor annan, heilsuðu hvor öðrum þegar verið að var setja fundinn. Þetta var afar stutt. Chávez forseti heilsaði Obama á spænsku, sem svaraði á ensku," sagði embættismaður frá Venesúela. 

Haft var eftir Chávez: „Ég heilsaði (George W.) Bush með handabandi fyrir átta árum. Ég vil vera vinur þinn." Obama þakkaði Chávez, að sögn embættismannsins.

Chávez hefur ítrekað sagt að Bandaríkin séu heimsvaldaríki sem vilji allstaðar drottna. Hann hefur þó lýst því yfir að hann beri virðingu fyrir Obama en sagði um Bush, að hann væri „vesalings heimskingi." 

Bandaríkin hafa á móti gagnrýnt stjórnvöld í Venesúela fyrir að hafa tengsl við skæruliðahreyfinguna FARC í Kólumbíu og grípa ekki til nægra aðgerða gegn fíkniefnadreifingu.  

Chávez rak í september sendiherra Bandaríkjanna í Caracas úr landi og svaraði Bandaríkjastjórn í sömu mynt með því að vísa sendiherra Venesúela úr landi.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka