Endurskoðendur kínverskra stjórnvalda hafa endurheimt sem svarar 515 milljarða króna af fé sem stolið var af embættismönnum árið 2007. Málið þykir varpa ljósi á mikla spillingu í stjórnkerfinu.
Um 30 embættismenn hafa verið teknir höndum, saksóttir og í sumum tilvikum dæmdir.
117 til viðbótar hefur einnig verið refsað með einhverjum hætti.
Vaxandi ólga er vegna niðursveiflunnar í Kína, á sama tíma og Hu Jintao Kínaforseti hefur ítrekað viðurkennt að spilling sé ein mesta ógnin við tiltrú á valdakerfi kommúnista.
Þetta skýrir hvers vegna reglulega er greint frá handtökum af þessu tagi í ríkisfjölmiðlum en slíkum fréttum er ætlað að sýna að stjórnin sitji ekki með hendur í skauti andspænis þessum vanda.
Í þessu samhengi má nefna að kínverskt dreifbýlisfólk hefur margt farið illa út úr spillingu í héruðunum þar sem algengt er að bændur séu hraktir af landi sínu eftir að spilltir embættismenn hafa þegið fé fyrir land þeirra af óprúttnum aðilum sem hyggja á námurekstur.