Mikil umræða hefur verið hér á landi að undanförnu um fjármál stjórnmálaflokkanna og líklega er það land vandfundið þar sem þau mál eru ekki reglulega í sviðsljósinu. Í vestrænum ríkjum og miklu víðar gilda ákveðin lög um fjárframlög til flokka en algengt er, að framhjá þeim sé farið.
Heita má, að í Evrópu, svo ekki sé leitað lengra, séu alltaf uppi einhver mál af þessu tagi og er þá oftast um að ræða ólögleg framlög til einstakra flokka eða framámanna í þeim. Í Bretlandi hafa báðir stóru flokkarnir orðið uppvísir að misferli af þessu tagi, á Írlandi hefur komist upp um mútur eða stórgjafir til ráðamanna og pólitísku spillingarmálin hafa hvert rekið annað í Frakklandi svo örfá dæmi séu nefnd.
Langt mál væri að telja upp öll mál af þessum toga en það langfrægasta er rannsóknin á spillingu ítölsku stjórnmálaflokkanna snemma á síðasta áratug. „Mani pulite“ var hún kölluð, „Hreinar hendur“, og það gegnumrotna kerfi, sem blasti við þegar lokinu hafði verið lyft, fékk nafnið „Tangentopoli“, „Mútubær“. Afleiðingarnar urðu þær, að ítalska stjórnmálakerfið hrundi að stórum hluta ásamt Fyrsta lýðveldinu, sem svo var kallað, og nokkrir stjórnmálamenn og fjármálamenn styttu sér aldur.
Á næstu mánuðum voru margir stjórnmálamenn og fjármálamenn, einkum þeir, sem tengdust þáverandi stjórnarflokkum, handteknir og ekki bara í Mílanó þar sem rannsóknin hófst, heldur vítt og breitt um Ítalíu. Skelfingin heltók ítalska stjórnmálamenn enda átti obbinn af þeim von á heimsókn lögreglunnar. Gott dæmi um það er einn þingmanna sósíalista. Dag nokkurn bönkuðu tveir lögreglumenn upp á hjá honum og þeir voru varla komnir inn fyrir hússins dyr þegar hann hafði játað stórar sakir á sig og marga aðra. Að því búnu komst hann að því, að erindi lögreglunnar var að afhenda honum sektarmiða vegna umferðarlagabrots.
Mörgum finnst hins vegar, að gamla sagan sé að endurtaka sig. Berlusconi er sakaður um víðtæka spillingu og á stundum virðist það vera hans helsta verkefni að standa vörð um eigin hagsmuni. Nú þykir það líka bara fínt að úthúða dómurunum, sem á sínum tíma beittu sér fyrir „Hreinum höndum“.
Þegar farið var að rannsaka málið kom í ljós mikill spillingarvefur. Þar komu til dæmis við sögu vopnasalinn Karlheinz Schreiber, franska olíufélagið Elf Aquitaine og hergagnasala til Sádi-Arabíu. Nú, áratug síðar, er unnið að rannsókn þessara mála. Kohl hætti á þingi og í stjórnmálum 2002 og það sama ár varð hann að segja af sér sem heiðursformaður CDU.