Grænlenskir stjórnmálamenn hafa án árangurs reynt að breyta stjórn Grænlandsflugs. Segir forstjóri félagsins þessi afskipti enn eitt dæmið un þau vandamál, sem klíkuvæðing grænlenskra stjórnmála skapi.
Danska blaðið Berlingske Tidende lýsir atburðum síðustu daga þannig að grænlenska heimastjórnin hafi sent Grænlandsflug í pólitíska flugferð sem hafi legið gegnum taktísk loftgöt og endað með nauðlendingu.
Julia Pars, var fyrir rúmri viku vikið úr embætti stjórnarformanns félagsins en þar hefur hún setið sem fulltrúi grænlensku heimastjórnarinnar. Þetta gerðist þótt Grænlandsflug hefði skilað góðri afkomu árið 2008.
Í staðinn var þingmaðurinn Lars-Emil Johansen tilnefndur í stjórn Grænlandsflugs vegna þess að hann hafði, að sögn heimastjórnarmanna, reynslu á hinu pólitíska sviði. Johanesen situr nú fyrir hönd Grænlendinga á danska þinginu en hann var um tíma formaður grænlensku heimastjórnarinnar.
En á föstudag tilkynnti Johansen að hann vildi ekki taka stjórnarsætið því hann vildi ekki vera þar sem samstarfsmennirnir væru óánægðir. Svo virðist, sem fulltrúi starfsmanna í stjórn Grænlandsflugs hafi lýst megnri óánægju með að Johansen ætti að koma í stjórnina.
Á endanum bað heimastjórnin Juliu Pars að taka á ný stjórnarsætið, sem hún þáði þótt því hefði verið lýst yfir nokkrum dögum fyrr að hún væri ekki rétti maðurinn á rétta staðnum.
Michael Binzer, forstjóri Grænlandsflugs, segir við Berlingske Tidende, að þessar hræringar séu enn eitt dæmið um að grænlenskt athafnalíf sé gegnsýrt af pólitískum afskiptum, klíkuskap og samtryggingu.
Binzer gagnrýndi á síðasta ári grænlenska stjórnmálamenn harðlega og sagði það gríðarlegt vandamál, að flokksfélagar og pólitískir vinir fengju oft stöður í opinberum grænlenskum fyrirtækjum þótt þeir hafi hvorki til að bera menntun né reynslu til að gegna þeim. Lars-Emil Johansen birti þá opið bréf í dönskum fjölmiðlum þar sem hann hellti sér yfir Binzer og sakaði hann um að reyna að gera alla stjórnarmenn og framkvæmdastjóra í opinberum fyrirtækjum á Grænlandi tortryggilega.
Binzer vildi í gær ekki tjá sig um, hvort heimastjórnin hafi með því að setja Johansen í stjórnina viljað freista þess að koma böndum á forstjórann og tryggja að hann lýsti skoðunum sínum ekki í fjölmiðlum.
„En ég hef ekki skipt um skoðun frá því ég lýsti henni opinberlega á síðasta ári," sagði hann.
Danska ríkið á 25% af Grænlandsflugi og SAS og grænlenska heimastjórnin eiga 37,5% hvort.