Villtist á ísnum í 40° frosti

Ísjakar við Grænland.
Ísjakar við Grænland. AP

Bandarískur vísindamaður gekk villtur um meginlandsísinn á Grænlandi í þrjá sólarhringa í 40 gráðu frosti áður en hann fannst. Þá hafði hann fengið kalsár. Maðurinn liggur nú á sjúkrahúsi á Grænlandi en að sögn lækna gengur það kraftaverki næst að hann lifði þessa raun af.

Maðurinn fór á vélsleða frá rannsóknarstofunni Summit á miðju Grænlandi á föstudag. Leit var hafin á manninum og tók m.a. danski flugherinn þátt í henni með eftirlitsflugvélum. Veðrið var slæmt og skyggni sömuleiðis en maðurinn fannst samt með aðstoð ratsjár. 

Danska ríkisútvarpið hefur eftir  danska foringjanum Søren Bonfils, að eftir að einhver ójafna fannst á ratsjánni hafi boðum verið komið til leitarflokka. Þegar veðrið skánaði var farið á staðinn. Þá fannst vélsleðinn og maðurinn fannst síðan á gangi í um 3,5 km fjarlægð.

„Það er merkilegt að maðurinn hafi lifað af að hafa verið á göngu í 72 tíma án sérstaks útbúnaðar. En það kom í kjós að hann hefur verið á suðurpólnum og tekið þátt í leiðöngrum á heimskautasvæðum," sagði Bonfils.

Fram kemur á vef danska ríkisútvarpsins, að veðrabrigði verði oft snögg á Grænlandi og hugsanlega hafi það leitt til þess, að vísindamaðurinn villtist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka