Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn áætlar að fjárhagslegur kostnaður vegna fjármálahrunsins muni nema allt að 518.000 milljörðum króna, skaði sem muni setja mark sitt á fjármálakerfi heimsins um ókomin ár. Sjóðurinn telur banka munu þurfa allt að 220.000 milljarða króna til viðbótar gegn vandanum.
Nemur kostnaðurinn af kreppunni því sem svarar 353-faldri vergri landsframleiðslu á Íslandi árið 2008, samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands.
Metur sjóðurinn það svo að þrátt fyrir að gripið verði til skjótra aðgerða til að koma mörkuðunum í gang muni viðreisnarferlið taka langan tíma, en fyrir ári spáðu sérfræðingar hans að kostnaðurinn við hrunið yrði fjórfalt minni en þeir ráðgera nú.
Bankar muni þurfa allt að 1.700 milljarða dala, jafngildi um 220.000 milljarða króna, í aukafjárveitingu til að komast út úr kreppunni.
Telur sjóðurinn að heildarkostnaðurinn við endurreisn breskra banka muni bæta 13,4% við skuldir ríkisins, samanborið við 12,1% í Bandaríkjunum og 13.9% á Írlandi.