Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, segir Mahmoud Ahmadinejad, forseti Írans, hafa brugðist trausti sínu er hann sakaði Ísraela um kynþáttahatur og glæpi í skjóli öryggisráðs sameinuðu þjóðanna, í ræðu sem hann flutti á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttahatur í Genf í Sviss í gær.
„Ég harma það að Íransforseti hafi notað þennan vettvang til ásakana- og til að ýta undir sundrungu,” segir í yfirlýsingu Ban. „Þetta er í algerri andstöðu við tilgang ráðstefnunnar. Það er mjög sorglegt að forseti Írans skyldi líta framhjá tilmælum mínum um að stuðla að framtíðarsáttum.”
Mjög umdeilt var fyrir ráðstefnuna að Ahmadinejad skyldi boðið að tala þar. Áður en ráðstefnan hófst átti Ban fund með honum þar sem hann minnti hann á ályktanir Sameinuðu þjóðanna þar sem kveðið er á um að síonismi falli ekki undir kynþáttahatur og staðfest er að helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinni hafi átt sér stað.
Fulltrúar 23 Evrópuþjóða gengu út af ráðstefnunni er Ahmadinejad sagði í ræðu sinni að flækingar frá Evrópu og Bandaríkjunum hafi verið sendir sem innflytjendur til Miðausturlanda til að koma þar á stjórn kynþáttahaturs og að síonistar hefðu síðan fengið óáreittir að fremja þar glæpi í skjóli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.
Hassan Ghashghavi, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að með því að ganga út af ráðstefnunni hefði vestrænir stjórnarerindrekar sýnt það í verki að þeir þyldu ekki tjáningarfrelsi í raun þegar kæmi að síonisma.