Ræða Ahmadinejads lofuð í Íran

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á ráðstefnu SÞ í Genf í gær.
Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti á ráðstefnu SÞ í Genf í gær. Reuters

Mahmoud Ahmadinejad Íransforseti hefur verið hylltur í nokkrum blöðum í Íran í dag fyrir ræðu sem hann hélt á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um kynþáttahatur í Genf í Sviss í gær. Ræða forsetans hefur verið harðlega gagnrýnd á Vesturlöndum og gengu fulltrúar 23 Evrópuþjóða út úr ráðstefnusalnum er hann gagnrýndi Ísrael í ræðunni. 

Aðalfyrirsögn stjórnablaðsins Kayhaner: „Kall eftir réttlæti í hjarta Evrópu: Ahmadinejad reitti vestræna kynþáttahatara til reiði,” og fyrirsögn annars stórblaðs er: „Ahmadinejad boðinn velkominn og Ísrael kynþáttahatursins fordæmt”.

Þá má lesa fyrirsögnina „Klappað fyrir röksemdafærslu Írana í Genf,” í blaðinu Vatan Emrouz og fyrirsögnina: „Okkar maður númer eitt í Genf: Forseti Írans reiti síonista til reiði" í blaðinu Jam-e Jam.

„Ég dáist að afstöðu Ahmadinejads til stjórnar síonista,” segir íhaldmaðurinn Ali Motahari. „Það var mikilvægt að koma afstöðu íslamska lýðveldisins til stjórnar síonista á framfæri við umheiminn og forsetanum tókst það mjög vel.”

Ahmadinejad sagði m.a. í ræðu sinni að flækingar frá Evrópu og Bandaríkjunum hafi verið sendir sem innflytjendur til Miðausturlanda til að koma þar á stjórn kynþáttahaturs og að þeir hafi síðan fengið að fremja þar glæpi óáreittir í skjóli öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna. 

Hassan Ghashghavi, talsmaður íranska utanríkisráðuneytisins sagði í gær að með því að ganga út af ráðstefnunni hefði vestrænir stjórnarerindrekar sýnt það í verki að þeir þyldu ekki tjáningarfrelsi í raun þegar kæmi að síonisma.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert