Verð á farsímaþjónustu lækkar í Evrópu

„Bíddu hægur! Hvað kostar þetta eiginlega mikið,“ gæti þessi tæknivæddi …
„Bíddu hægur! Hvað kostar þetta eiginlega mikið,“ gæti þessi tæknivæddi farsímanotandi verið að segja. Reuters

Evrópuþingið hefur samþykkt, með yfirgnæfandi meirihluta þingmanna, að draga úr kostnaði við að nota netið í farsímum og senda SMS-skeyti erlendis. Verðþakið fyrir SMS-reikiþjónustu hefur verið lækkað í 11 evrusent (um 19 kr.) Víðast hvar hefur taxtinn verið 29 evrusent (49 kr.)

Fram kemur á fréttavef BBC að breytingarnar muni taka gildi í júlí. Þá er tekið fram að ofangreint verð sé án virðisauka sem bætist svo ofan á. Löggjöfin nær yfir smáskilaboð og reikiþjónustu fyrir netnotendur, en margir nota farsímann til að skoða tölvupóstinn þegar þeir eru erlendis.

Þá mun verðþakið á símtölum lækka úr 46 evrusentum í 43 evrusent í júlí.

Alls studdu 646 þingmenn breytingarnar en 22 voru á móti. Ráðherrar fjarskiptamála innan Evrópusambandsins hafa þegar samþykkt löggjöfina.

Ætlunin er að koma í veg fyrir að farsímanotendur fái áfall þegar þeir fá reikninginn í hendurnar. Það á til að gerast t.d. þegar ferðamenn koma heim frá útlöndum. Margir gera sér einfaldlega ekki grein fyrir því hvað það er dýrt að nota farsímana á erlendis.

Fram kemur á vef BBC að dæmi sé um að farsímanotandi hafi fengið sex milljón kr. reikning fyrir að hafa halað niður sjónvarpsþætti inn á símann sinn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert