Bandaríska varnarmálaráðuneytið mun fljótlega birta hundruð ljósmynda sem sýna misþyrmingar Bandaríkjamanna gagnvart föngum í Írak og Afganistan, samkvæmt heimildum AFP fréttastofunnar innan úr ráðuneytinu. Verða myndirnar birtar opinberlega þann 28. maí.
Condoleezza Rice, þáverandi þjóðaröryggisráðgjafi Bandaríkjanna, og John D. Ashcroft, þáverandi dómsmálaráðherra, heimiluðu um sumarið 2002, ásamt að minnsta kosti tíu öðrum háttsettum fulltrúum ríkisstjórnar George W. Bush, bandarísku leyniþjónustunni, CIA, að beita óvenjulegum aðferðum við yfirheyrslur í leynifangelsum.
Heimildin náði til vatnspyntinga, aðferðar sem Eric H. Holder, núverandi dómsmálaráðherra, hefur lýst yfir að sé ólögleg pyntingaraðferð.
Þetta kemur fram í gögnum sem Holder afhenti nefnd sem fer með leyniþjónustumál í öldungadeild Bandaríkjaþings, en þar segir að Rice hafi tveimur mánuðum fyrir samþykkt aðferðanna hinn 17. júlí 2002 hlýtt, ásamt fjórum öðrum fulltrúum stjórnarinnar, á tillögur um pyntingaraðferðir, þ.m.t. vatnspyntingar, þar sem líkt er eftir drukknun.
Í júlí 2003 sátu Rice, Dick Cheney, þáverandi varaforseti, og fleiri háttsettir aðilar í stjórninni svo fund þar sem niðurstaðan var sú að aðferðir CIA væru í samræmi við lög.
Árið 2004 kom hins vegar fram í áliti CIA að ekki væri ljóst að aðferðirnar væru löglegar. Í júlí sama ár sendi dómsmálaráðuneytið, að frumkvæði Ashcrofts, bréf til CIA þar sem sagði að aðferðirnar, að vatnspyntingum frátöldum, væru löglegar. Ráðuneytið sendi síðan frá sér tvö álit þar sem niðurstaðan var sú að vatnspyntingar gætu verið löglegar ef þær væru framkvæmdar í samræmi við öryggisreglur CIA.
Árið eftir lýsti Rice því svo yfir að stjórnin heimilaði ekki pyntingar.