Lögreglu í Kaupmannahöfn hefur ekki tekist að tengja sprengingu í Kristjaníu í gær við stríð glæpagengja í borginni. Fimm slösuðust í sprengingunni og tengist enginn þeirra glæpagengjunum. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Fólkið, sem allt er með hreina sakaskrá, sat á kaffihúsinu Cafe Nemoland þegar handsprengju var kastað inn. Fólkið er allt á þrítugsaldri og slasaðist mismikið en ungur maður, sem slasaðist mest, er mjög illa farinn í andliti.
Í síðustu viku var ungur maður skotinn í magann á Cafe Nemoland. Það atvik er talið tengjast átökum glæpagengja. Því er talið líklegt að árásin í gær tengist fremur staðnum en fólkinu sem fyrir árásinni varð.