Ísraelsher hefur birt skýrslu þar sem fram kemur að innri rannsókn hersins hafi leitt í ljós að stríðsglæpir hafi ekki verið framdir í hernaðaraðgerðum Ísraela á Gasasvæðinu í desember og janúar. Fram kemur í skýrslunni að ísraelskir hermenn hafi aldrei ráðist vísvitandi á óbreytta borgara. Þetta kemur fram á fréttavef Ha'aretz.
Skýrslan er unnin af fimm yfirmönnum hersins sem ekki tóku þátt í hernaðinum. Fóru þeir yfir allar tilkynningar um árásir á óbreytta borgara, borgaraleg mannvirki, hjálparstarfsmenn og mannvirki hjálparstofnana. Þeir skoðuðu einnig sérstaklega notkun fósfórs í hernaðinum en Ísraelsher hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir notkun efnisins á þéttbýlum svæðum á meðan á hernaðinum stóð.
Í skýrslunni kemur fram að í nokkrum tilfellum hafi verið ráðist á óbreytta borgara en að alltaf hafi verið um mistök að ræða en ekki ætlunarverk.Er árásin á hús Al-Dahiyeh fjölskyldunnar í Zeitoun í Gasaborg varin í skýrslunni. Þar segir að talið hafi verið að vopnabúr væri í nærliggjandi húsi og að fólkið í því húsi hafi veri varað við árásinni áður en hún var gerð. Vegna tæknibilunar hafi loftárásin hins vegar verið gerð á rangt hús.
21 meðlimur sömu fjölskydu lífið í árásinni. Í skýrslunni segir að um „sorglegt avik hafi verið að ræða en að það hafi verið afleiðing tæknibilunar og að slíkt geti alltaf átt sér stað þegar hörð átök standi yfir."