Spænsk yfirvöld hafa ákveðið að veita 14 milljarða evra til hjálpar litlum og miðlungsstórum fyrirtækjum sem lent hafa í miklum erfiðleikum vegna kreppunnar. Samþykkt var að setja 11 milljarða til að strika út ógreidda reikninga til sveitarfélaga og þrjá milljarða til viðbótar í ábyrgðir fyrir eigendur smáfyrirtækja fyrir þjónusu sem þeir veita sveitarfélögum.
Sveitarfélög á Spáni hafa orðið illa úti í kreppunni og búa mörg við verulega skerta greiðslugetu gagnvart fyrirtækjum. Aðgerðir yfirvalda nú koma til viðbótar við 11 milljarða evru aðgerðapakka sem ráðist var í síðasta nóvember til að skapa 300 þúsund störf, sérstaklega við opinberar framkvæmdir.
Spánverjar fóru að finna verulega fyrir kreppunni í lok árs 2008 og er þetta í fyrsta skipti í 15 ár sem hagkerfi þeirra skreppur svo mikið saman. Atvinnuleysi á Spáni hefur nú náð 17% og hefur þannig næstum tvöfaldast á síðastliðnu ári svo fjórar milljónir Spánverja hafa nú enga vinnu.