Mikill viðbúnaður hjá WHO vegna svínainnflúensu

Mikill viðbúnaður er hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) vegna svínainnflúensu sem virðist vera mannskæð. En talið er að allt að 60 manns í Mexíkó hafi látist úr innflúensunni, auk þess sem nokkrir hafi sýkst í Bandaríkjunum.

„Það sem mestum áhyggjum veldur er að að vírusinn virðist berast manna á milli,“ hefur AFP fréttastofan eftir Thomas Abraham, talsmanni WHO, sem sagði vírusinn virðast hafa stökkbreyst með hætti sem ekki hefði áður sést.

Að sögn Dave Daigle, hjá sóttvarnareftirliti Bandaríkjanna sem á nú í nánu samstarfi við WHO, er útliti fyrir að afbrigði fuglaflensu, tvenns konar afbrigði svínainnflúensu og afbrigði hefðbundinnar flensu sem herjar á menn hafi nú í fyrsta skipti sameinast.

Þessi einkenni, ásamt því að flensan virðist einnig leggjast á ungt heilbrigt fólk en ekki aldraða eða ung börn, hefur vakið áhyggjur um hættuna á verulega alvarlegu faraldri.

Auðvelt er fyrir vírusa að sameinast í líkama svíns hafi dýrið verið smitað af fleiri enn einum vírus á sama tíma og framkalla þar með nýtt og heiftarlegra afbrigði. 

Talið er að allt að þúsund manns hafi veikst af svínainnflúensunni í Mexíkó og er búið að sýna fram á að a.m.k. 12 þeirra sem létust hafi verið smitaðir af veiru af sama stofni og átta Bandaríkjamenn sem veiktust í Texas og Kaliforníu, þó að Bandaríkjamennirnir hafi allir náð heilsu á ný.

Þá hafa 75 námsmenn í New York greinst með einkenni lík innflúensunni og sæta nú frekari rannsóknum að sögn CNN fréttastofunnar.

Í Mexíkó ganga margir nú með grímur af ótta við …
Í Mexíkó ganga margir nú með grímur af ótta við flensuna. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert