Frönsk heilbrigðisyfirvöld segja, að grunur leiki á að tveir Frakkar, sem nýlega komu heim frá Mexíkó, hafi smitast af svínaflensu. Búist er við að fleiri veikist á næstunni þar sem mikill samgangur sé milli landanna tveggja.
Talir er að allt að 81 maður hafi látist af völdum stökkbreyttrar svínaflensuveiru, sem getur borist milli manns. Talið er að 10 manns í Bandaríkjunum hafi einnig smitast og í morgun bárust fréttir af tíu nýsjálenskum námsmönnum, sem nýlega komu frá Mexíkó og eru taldir hafa fengið sjúkdóminn.
Alþjóða heilbrigðisstofnunin (WHO) óttast að svínaflensan geti orðið að heimsfaraldri og að öll ríki heims verði að vera á varðbergi.