Hópur belgískra útvarpsáhugamanna ætlar að halda til klettaeyjunnar Rockall í miðju Atlantshafi og vonast til að geta sent útvarpsþætti þaðan.
Rockall er 23 metrar á breidd og 27 metrar á lengd og er afar erfitt að komast þar á land. Við klettinn hafa mælst hæstu öldur sem um getur, 27 metra háar.
Fram kemur á heimasíðu BBC, að rafeindavirkinn Patrick Godderie sé leiðangursstjóri en hópurinn ætlar að slá upp sérhönnuðum tjaldbúðum á Rockall.
Rockall hefur verið deiluefni milli Íslendinga, Breta, Íra og Dana en allar þessar þjóðir gera tilkall til svæðisins á grundvelli landgrunnsréttinda. Talið er að mikið magn af olíu og gasi kunni að vera að finna á svæðinu.
Fyrst var gengið á land á Rockall árið 1810 en nákvæm staðsetning klettsins var fyrst birt á korti árið 1831. Bretar settu sérstök lög árið 1972 þar sem því var lýst yfir, að Rockall væri hluti af Invernessýslu á Skotlandi.
Árið 1997 fór hópur Grænfriðunga til Rockall og dvaldi þar í 42 daga.